Hitabrúsar á fjöllum ?

Þú ert búinn að berjast við veðrið í marga klukkutíma, línurnar hrímaðar, karabínurnar frosnar fastar, spindrift lekur niður hálsmálið á þér og þetta er löngu hætt að vera gaman og hvað þá fyndið. Þú rétt nærð að skríða seinustu metrana og skýla þér á bakvið eitthvað íshröngl og þú heldur að þetta sé þetta sé þitt síðasta…þangað til að félaginn dregur upp hitabrúsann með dísætu te. Skyndilega rofar til, þið dreypið saman af þessum frábæra drykk og eruð fljótir að gleyma hremmingum seinustu klukkutíma.

Þó að hitabrúsar séu gríðarlega næs þá eru þeir líka þungir. Til að maður fúnkeri vel yfir daginn þarf maður að bera með sér vatn, og er talað um að á góðum ísklifurdegi þurfi maður að drekka lágmark 1-2 lítra (misjafnt eftir fólki) og eflaust hægt að velta sér eitthvað upp úr því en pointið er að maður þarf að bera það…og ekki vill maður sleppa heita teinu.

Það sem hefur hentað mér vel, og er alger snilld eru Nalgene flöskur í einangruðu hulstri. Þetta einangrar ekki eins vel og hitabrúsinn, en ef maður skellir sjóðandi vatni á þetta um morguninn þá helst það brennandi heitt fram að hádegi og volgt frameftir degi. Þar með er búið að slá nokkrar flugur í einu höggi: Vatnið heitt til hland volgt út daginn og þú þarft ekki að drekka kalt vatn til að fylla á vökvatapið, það frýs ekki í flöskunni, þú ert með hitabrúsastemminguna og sparar þyngd.

Hver kannast svo ekki við það að koma heim eftir daginn og hitabrúsinn er svo gott sem fullur ?